Þormóður Jónsson keppir á Ólympíuleikunum í Peking. Í síðustu viku voru svo kölluðum „wild card“ úthlutað og er það nefnd á vegum IOC (alþjóða ólympíunefndin) ANOC (samtök alþjóðlegra Ólympíunefnda) og IJF (alþjóða júdósambandið) sem úthlutar þeim. Það voru fjölmargar þjóðir sem sóttu um og af 20 wild card sem í boði voru fengum við Íslendingar eitt þeirra og er það mikil viðurkenning á starfi JSÍ og árangri okkar keppenda í gegnum tíðina. Við höfum ekki átt keppendur á Ólympíuleikum frá 1996 en fram að því höfðum við samfleytt frá 1976 verið með einn til þrjá keppendur og er Þormóður sá þrettándi til að keppa fyrir okkar hönd. Við óskum Þormóði til hamingju með úthlutunina og góðs gengis þann 15 ágúst en þá keppir hann.