Frábær árangur á hjá strákunum á alþjóðaleikum ungmenna í Edinborg. Bæði Logi og Roman unnu til silfurverðlauna í dag og mátti litlu muna að það yrðu tvenn gullverðlaun. Logi -73 kg keppti í fjögurra manna riðli með Skota, Lithá og Úkraníu manni. Fyrst mætti Logi Skotanum og vann hann á ippon eftir stutta viðureign. Næst mætti hann Litháanum og komst Litháinn yfir og leiddi glímuna með yuko. En Logi spýtti í lófana og eftir stutta stund fékk hann tækifæri sem hann nýtti og henti Litháanum á ippon með fallegu harai-goshi. Næsta glíma gegn Úkraníu var í raun úrslitaglíma þar sem Úkraníubúinn hafði einnig unnið Skotann og Litháann. Þessi glíma var bæði jöfn og spennandi en að lokum tapaði Logi þegar Úkraníubúinn komst í Makki-komi og skoraði Ippon. Í flokknum hjá Roman -81 kg voru 7 keppendur og voru því tveir riðlar. Einn 3 manna og einn 4 manna og var Roman í honum ásamt Slóvena, Skota og Pólverja en í hinum riðlinum var Rússi, Ungverji og Úkraníubúi. Það er skemmst frá því að segja að Roman vann sinn riðil með yfirburðum og fór því upp úr riðlinum ásamt Slóvenanum og voru þeir því komnir í undanúrslit. Þar mætti Roman Rússa og vann hann örugglega og Slóveninn vann sinn mótherja þannig að þeir mættust aftur og nú í úrslitum. Sú glíma var víst algjört dómarahneyksli að sögn Bjarn Skúlasonar þjálfara. Roman komst yfir í glímunni og leiddi hana með yuko og var í raun aldrei í hættu og stjórnaði glímunni. En þegar lítið er eftir að viðureigninni reyndi Slóveninn að sópa fótunum undan Roman (de-ashi-barai) þá gerði Roman það sem hann gerir svo oft með góðum árangri hann fer í fórnarbragð (tomonage) í beinu framhaldi af misheppnuðu sópi og þegar hann snertir gólfið með bakinu þá dæmir dómarinn Wazaari fyrir Slóvenann! Þessu stigi hélt hann þar til tíminn rann út. Það var almanna rómur að þetta hafi verið kolrangt metið af dómaranum sem er með IJF réttindi en ekkert þýddi að mótmæla og Slóveninn vann því gullið á þessum dómi. Þó svo að það hafi verið fúlt að fá ekki gullið þarna, þá stóðu strákarnir sig frábærlega og unnu sex glímur af átta og það einstaklinga frá þjóðum með virkilega sterka júdó hefð. Til hamingju strákar.