Þormóður Jónsson og Sveinbjörn Iura kepptu á Europena Cup í Prag í Tékklandi um helgina. Þetta var síðasta mótið fyrir Ólympíuleika og var það óvenju sterkt að þessu sinni enda nánast allir bestu júdómenn Evrópu á meðal þátttakenda í sínum lokaundirbúningi fyrir leikana.
Í -81 kg flokknum hjá Sveinbirni voru rúmlega fjörtíu keppendur. Sveinbjörn vann auðveldlega fyrstu viðureign sína gegn Tomas Rakosnik frá Tékklandi sem hafði byrjað með látum en Sveinbjörn skoraði fljótlega yuko og stuttu seinna wazaari og þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af viðureigninni henti hann Tomas á ippon með fallegu uchimata. Í annari umferð mætti hann Hollendingnum Schol Melvin og var það hörkuviðureign þar sem hvorugur náði að skora eftir venjulegan glímutíma svo viðureignin fór í gullskor og tókst Schol að koma bragði á Sveinbjörn sem þar með tapaði og féll jafnframt úr keppni þar sem Schol komst ekki í undanúrslit.
Í þungavigtinni voru tuttugu keppendur og var flokkurinn gríðasterkur þar sem um helmingur þeirra hefur náð Ólympíulágmörkunum og munu keppa í London í júlí. Þormóður sat hjá í fyrstu umferð en mætti Amrouche frá Alsír í annari umferð sem hann vinnur hann á ippon með Kosoto-gari eftir tæpar tvær mínútur. Í þriðju umferð mætir hann Daniel Allerstorfer frá Austurríki og var Þormóður mun sterkari aðilinn og alveg óskiljanlegt hvernig Daníel slapp við refsistig þar sem hann var meira og minna í vörn. Þormóður náði tveimur góðum köstum og dæmdi aðaldómari yuko fyrir fyrra kastið en hornadómarar dæmdu það af og í seinna skiptið fékk hann ekkert skor. Um miðja viðureign nær Daniel forystu þegar hann skorar wazaari og náði að halda henni út viðureignina. Þormmóður fékk uppreisnarglímu og mætti Zimmermann frá Þýskalandi sem um miðja viðureign skoraði ippon og þar með var keppninni lokið hjá Þormóði sem endaði í níunda sæti.
Að loknu móti tekur við fjögurra daga æfingabúðir hjá þeim félögum og verða þær haldnar í Nymburk sem er um 80 km fyrir utan Prag.