Haustmót JSÍ var haldið í dag hjá Þrótturum í Vogum á Vatnsleysuströnd og voru keppendur sjötíu frá sjö félögum. Mótið tókst í alla staði vel og var umgjörð og framkvæmd til fyrirmyndar. Keppnin var oft á tíðum jöfn og spennandi og mörg glæsileg köst litu dagsins ljós og vel útfærðar gólfglímur. Úrslitin í karla og kvennaflokkum urðu eins og búist hafði verið við og unnu sigurvegararnir allar sýnar viðureignir nokkuð örugglega en fengu samt öfluga mótspyrnu. Sævar Róberts sem sigraði í U20 -100kg, lét gamla brýnið Þorvald Blöndal hafa fyrir sigrinum í -100 kg flokki karla og það sama gerðu þeir Logi Haralds og Björn Lúkas gegn Kristjáni Jónssyni í -81 kg flokknum en Björn sigraði í U20 -81/90 kg og Logi í U17 -81kg. Viktor Bjarnason var í úrslitum gegn Eiríki Inga í -73 kg flokknum og var það hörku viðureign sem endaði með glæsilegu uchi-mata kasti hjá Eiríki sem hann fékk ippon fyrir og Ásta Lovísa -57 kg var sterkust í kvennaflokknum og sigraði í sameinuðum flokkum, kvenna -57 til -7 0 kg. Keppnin í yngri aldursflokkunum var ekki síðri en í þeim eldri. Svo eitthvað sé nefnt þá sigruðu örugglega þeir Kjartan Magnússon -66 kg flokkinn og Gísli Vilborgarson -73 kg flokkinn í U20 ára, Adrian Ingimundarson sem er að verða ógnarsterkur sigraði einnig örugglega +90 kg flokkinn í U17 og í aldursflokknum U15 var hörkukeppni milli frábærra júdómanna í -60 kg flokknum, þeirra Bjarna Darra, Matthíasar Kristjánssonar og Ásþórs Rúnars sem að lokum sigraði en hér má sjá öll úrslitin.