Hér eru úrslit Íslandsmeistaramóts fullorðinna 2013. Helstu tíðindi mótsins eru að Þormóður Jónsson vann tvöfalt, bæði +100 kg flokk karla og opinn flokk karla. Þormóður kom vel einbeittur til leiks og vann allar sínar glímur örugglega. Það var helst Jón Þór Þórarinsson sem tókst að standa í Þormóði í úrslitaglímu opna flokksins. Anna Soffía Víkingsdóttir kom til baka eftir meiðsl og sýndi það og sannaði að hún er drotting íslensks Júdós í dag. Anna Soffía vann -78 kg flokk kvenna sem og opinn flokk. Anna Soffía gerði eins og Þormóður og vann allar sínar viðureignir örugglega á Ippon. Sveinbjörn Iura, sem hefur s.l. 4 ár drottnað yfir -81 kg flokki karla varð nú að játa sig sigraðan. Kristján Jónsson, sem undanfarin 2 ár hefur keppt til úrslita við Sveinbjörn, útfærði sýna úrslitaglímu við Sveinbjörn einstaklega vel og kastaði Sveinbirni á Ippon kasti um miðja glímu. Annað markvert var að Þorvaldur Blöndal -90kg flokki og Ásta Lovísa Arnórsdóttir -57kg vörðu íslandsmeistaratitla sína þriðja árið í röð og Eiríkur Ingi Kristinsson varði sinn Íslandsmeistaratitil í -73 kg. flokki karla og var þar með elsti Íslandsmeistari sögunnar í Júdó, en Eiríkur er á 43 aldursári.