Í gær fór Axel Ingi Jónsson með nokkra landsliðsmenn seniora í fimm daga æfingabúðir til Mittersill í Austurríki. Þetta eru svokallaðar OTC (Olympic Training Camp) æfingabúðir sem haldnar eru nokkrum sinnum á ári og þar koma saman saman allir bestu júdómenn Evrópu hverju sinni svo okkar menn eru þar í góðum félagsskap. Þeir sem fóru ásamt Axeli voru, Þormóður Jónsson, Hermann Unnarsson og Þór Davíðsson. Á morgun 9. jan. fara svo á dómararáðstefnu þeir Jón Sigurðsson og Jón Óðinn Waage. Á þessa ráðstefnu sem haldin verður á Malaga á Spáni verður JSÍ að senda þátttakendur til að fylgjast með tíðum breytingum á dómarareglunum en aðalefnið er einmitt kynning á nýjustu reglunum. Föstudaginn 10. jan. fer svo kadett og junioralandslið til Hollands ásamt þjálfara. Þar munu þeir keppa á Opna Hollenska í Eindhoven um helgina og taka síðan þátt í eins dags æfingabúðum á mánudaginn áður en komið verður heim aftur. Þeir sem keppa í Hollandi eru Adrían Ingimundarson, Breki Bernharðsson, Benedikt Benediktsson, Egill Blöndal, Gísli Vilborgarson, Karl Stefánsson og Logi Haraldsson.