Þormóður Jónsson keppti til úrslita á Evrópu bikarmótinu í London í +100 kg flokki í dag gegn Ítalanum Mascetti Alessio. Því miður laut hann í lægra haldi og tapaði viðureigninni á fjórum refsistigum á aðeins einni og hálfri mínútu sem á varla að vera hægt á svo skömmum tíma. Það er athygglisvert að Mascetti vann einnig fyrstu viðureign sína gegn Sherrington með sama hætti fjögur refsistig en þar á tveimur mínútum sem einnig er ákaflega skammur tími.Hann sýndi lítið judo og var eins og jarðýta og ýtti andstæðingum sínum meira og minna út af keppnissvæðinu sem fengu þá refsistigin fyrir að “stíga út af ” í stað þess að Mascetti hefði átt að fá þau á sig fyrir ruðning. Áhugavert væri að sjá þessar viðureignir á video til að meta dómgæsluna því það er fáheyrt að keppendur fái svo mörg refsistig á svo skömmum tíma. En hvað um það svona fór þetta og silfur á Evrópubikarmóti er frábær árangur. Þetta var fyrsta keppnin Þormóðs erlendis í heilt ár en hann varð fyrir meiðslum á NM í maí 2013 er hann sleit vöðvafestingu í upphandleggsvöðva. Þessi árangur lofar því góðu og vonandi verður það honum hvatning til frekari dáða og stefnan verði sett á Ólympíuleikana í Brasilíu. Á myndinni er Þormóður með silfurverðlaunin ásamt Axeli Inga Jónssyni landslliðsþjálfar.