Skipuleggjendur og starfsmenn NM 2014
Þessir stóðu að framkvæmdinni

Að loknu Norðurlandamóti var haldið hóf í tilefni þess að fimmtíu ár eru síðan að mótið var fyrst haldið en það var í Malmö í Svíþjóð 1964. Esa Niemi formaður Finnska Júdósambandsins og gestgjafi, bauð gesti velkomna. Haldnar voru allnokkrar ræður og meðal ræðumanna var einn heiðursgestanna Hans Kutchera varaforseti EJU sem hélt stutta tölu. Finnska sambandið hafði látið taka saman í bækling sögu NM frá upphafi í grófum dráttum og fór höfundur í gegnum hana. Einn ræðumanna var Jóhann Másson formaður JSÍ sem þakkaði formanni Finnska júdósambandsins og hans mönnum fyrir frábært mót og hversu vel var staðið að allri skipulagningu. Þá færði hann formönnum allra Norðurlandaþjóðanna bókargjöf frá JSÍ af tilefni dagsins. Esa Niemi afhenti að lokum Jóhanni þjóðfána allra Norðurlandanna, bæði borðfána og fána í fullri stærð og var það táknræn athöfn þar sem næsta NM verður haldið á Íslandi 2015.