Á morgun verður dregið um hverjir keppa saman í fyrstu viðureignum á júdómóti Smáþjóðaleikanna. Miðað við keppendalistann er óhætt að segja að krefjandi verkefni bíði keppenda okkar en þó nokkrir keppendur eru ofarlega á heimslista alþjóða júdósambandsins. Þúsundir keppenda berjast um sæti á heimslista í sínum þyngdarflokkum.
Þormóður Jónsson mun að öllum líkindum etja kappi við Marko Radulovic frá Svartfjallalandi en hann er í 67. sæti heimslistans í +100 kg. flokki. Þormóður er þar í 149 sæti.
Sveinbjörn Iura, sem keppir í -81 kg. flokki gæti þurft að kljást við Svartfellinginn Srdan Mrvaljevic en hann er í 31. sæti heimslistans. Þess má geta að Srdan er silfurhafi á heimsmeistaramótinu í París árið 2011 og vann til gullverðlauna á European Open í Prag í fyrra. Alls hefur hann unnið þrenn gullverðlaun og sex brons á heimsbikarmótum á ferlinum.
Ingunn Sigurðardóttir fær einnig verðugt verkefni í -70kg. flokki. Í hennar þyngdarflokki er Lynn Mossong frá Luxemburg en Lynn er í 48. sæti heimslistans. Að auki má nefna að í -52kg. flokki kvenna keppir Marie Muller frá Luxemburg sem er í 55.sæti heimslistans. Marie hefur meðal annars unnið þrjú heimsbikarmót á síðustu árum.
Aðrir keppendur fyrir Íslands hönd eru þau Hjördís Ólafsdóttir, Anna Soffía Víkingsdóttir, Janusz Komendera, Hermann Unnarsson, Dofri Vikar Bragason og Þór Davíðsson.
Dagskrá næstu daga:
Einstaklingskeppni í júdó hefst kl. 14:00 – 17:30 (breyttur tími) næstkomandi föstudag og úrslitaviðureignir eru frá kl. 18:00 til 20:00 sama dag.
Sveitakeppnin hefst svo laugardaginn 6. júní kl. 12:00 – 14:30. Úrslitakeppnin í sveitakeppni verður svo milli kl. 15:00 og 16:00 á laugardag. Fyrir þá sem ekki vita hvernig sveitakeppni í júdó virkar þá er það þannig að valdir eru keppendur í þrjá þyngdarflokka sem mynda sveit. Til að sigra þarf sveitin að vinna a.m.k. tvær af þremur glímum. Sveitakeppni í júdó er gríðarlega spennandi og áhorfendavæn því oft myndast mikil stemning á pöllunum. Það er sannarlega viðburður sem enginn má missa af.