Á Opna sænska um helgina unnu við til silfurverðlauna og tveggja bronsverðlauna. Í U21 árs aldursflokki fékk Adríann Ingimundarson silfrið í opnum flokki en hann vann tvær viðureignir á ippon en tapaði úrslitaviðureigninni fyrir Reiter, öflugum og keppnisreyndum -100 kg manni frá Noregi. Logi Haraldsson sem féll ósanngjarnt út í 81 kg flokknum skellti sér í opna flokkinn og hafnaði þar í þriðja sæti en í bronsglímunni vann hann Svía með hengingu á mjög útsjónarsaman hátt í gólfglímunni. Egill Blöndal -90 kg, tapaði fyrstu viðureign mjög ósanngjarnt og fékk ekki uppreisn. Egill var mikið betri aðilinn í viðureigninni gegn afar passívum Hollendingi sem náði að bjarga sér gegn öflugum sóknum Egils og þegar um sex sekúndur voru eftir reyndi Egill tomonage en fékk á sig shido fyrir vikið en dómarinn vildi meina að um gervisókn hefði verið að ræða sem var alrangt. Í U18 ára aldursflokknum náði Grímur Ívarsson bronsverðlaunum í 90 kg flokknum en hann vann tvær viðureignir aðra á yuko og hina á ippon en tapar einni á yuko. Bjarni Sigfússon -73 kg tapaði fyrstu glímu eftir hörku viðureign gegn Finna og engin uppreisn. Ásþór Rúnarsson -73 kg vann fjórar viðureignir af sex mjög öruggt, tapaði einni á shido í gullskori og keppti um bronsverðlaunin en varð að lúta þar í lægra haldi og endaði fimmti, vel gert hjá Ása. Árni Lund -81 kg byrjaði af of miklum krafti í fyrstu viðureign og ætlaði að láta finna fyrir sér en var of bráður og var kastað á ogoshi / ippon eftir skamma viðureign. Árni fékk uppreisnarglímu og hafði þá lært af reynslunni og var ekkert að flýta sér um of. Hann stjórnaði glímunni og sótti stíft og var kominn í góða stöðu þar sem andstæðingurinn var kominn með tvö shido. Undir lok viðureignarinnar fær Árni á sig yuko en nær ekki að svara fyrir sig áður en tíminn er úti og tapar því glímunni. Þetta var vel gert hjá Árna sem er að stíga sín fyrstu skref í keppni erlendis. Heilt á litið er silfur og tvenn bronsverðlaun fínn árangur hjá strákunum.