

73. þing Evrópska Judosambandsins (EJU) var haldið í dag 4. Desember. Judosamband Íslands var þátttakandi en þingið var haldið í Istanbúl, Tyrklandi.
Eins og við mátti búast var lögð áhersla á að gera grein fyrir þeim áhrifum sem heimsfaraldurinn hefur haft á rekstur EJU. Mörgum mótum þurfti að fresta eða aflýsa. Margir viðburðir eins og námskeið, fundir og ráðstefnur voru færðir í netheima. Sergey Soloveychik forseti hrósaði öllum aðildarríkjum fyrir þá þrautseigju sem þau hefðu sýnt. Sérstaklega í undirbúningsferli og þátttöku Ólympíuleikanna 2020. Til dæmis var EJU eina álfusambandið sem tókst að halda sína álfukeppni (Evrópumeistaramótið) árið 2020. Var mótið haldið í Prag og hafði verið frestað frá apríl til nóvember. Skýrslur forseta, framkvæmdastjóra og varaforseta (Íþrótta, menntunar og markaðsmála) sýndu fram á að þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur Judo íþróttin blómstrað í Evrópu.
Ein tillaga var til þingsályktunar að þessu sinni. En framkvæmdastjórn EJU lagði fram þá tillögu að höfuðstöðvar EJU, og allt sem þeim tilheyrir, yrðu fluttar frá Möltu yfir til Vínarborgar í Austurríki. Var tillagan samþykkt einróma.
