Evrópumeistaramót Smáþjóða (GSSE) í Judo fór fram í dag, 5. Nóvember, Í Luxembourg. Þetta var í fyrsta skipti þar sem mótið var haldið og því voru fyrstu Evrópumeistarar Smáþjóða krýndir í dag. Fram að þessu hafa iðulega níu þjóðir keppt á GSSE en það eru Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Luxembourg, Malta, Monako, Svartfjallaland og San Marino. Í þessu móti eru ekki eru skráðir keppendur frá Svartfjallalandi né Monako en hinsvegar eru Færeyingar með keppendur og einnig Úkranía svo þátttökuþjóðirnar voru níu og keppendur alls 109.

Íslenskir keppendur voru alls tíu á mótinu. Fimm í karlalandsliði og fimm unglingalandsliði U18. Í karlaflokki var það árangur Egils Blöndal og Karls Stefánssonar sem stóð upp úr, en báðir unnu til gullverðlauna. Egill Blöndal sigraði -90kg flokk karla, mætti hann Raphael Schwendinger frá Lichtenstein í úrslitum. Egill glímdi af miklu öryggi og náði að tryggja sér sigur með armlás þegar um það bil þrjár mínútur voru liðnar af glímunni. Karl Stefánsson sigraði Edvard Johannesen frá Færeyjum í úrslitum +100kg flokksins.

Í keppni unglinga U18 var það frammistaða Aðalsteins Björnssonar og Darons Hancock sem stóð upp úr, en mættust þeir í úrslitum -73kg flokksins. Aðalsteinn tryggði sér titilinn eftir hörku viðureign.

Öll nánari úrslit mótsins má finna í hlekknum hér fyrir neðan og myndir af íslensku keppendunum.

-Úrslit-