Uppskeruhátíð JSÍ 2023
Sunnudaginn 17. desember 2023 hélt Judosamband Íslands árlega uppskeruhátíð í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Dagskráin var með hefðbundnu sniði.
Starfandi formaður JSÍ bauð gesti velkomna og fór í stuttu máli yfir árið sem er að líða og hvað er í vændum á komandi ári, en þar ber hæst Ólympíuleika í París. Nái íslenskur keppandi ekki lágmörkum fyrir leikana er möguleiki á að við fáum keppanda í gegnum svokallað Wild-card.
Judomaður ársins að þessu sinni var Karl Stefánsson (JDÁ) og judokona ársins Helena Bjarnadóttir (JR). Karl hefur átt gott ár og situr um þessar mundir í 122. sæti heimslista IJF í +100kg flokki. Þar vegur þungt að hafa náð að landa bronsverðlaunum á Continental open móti í Yaonde í Kamerún. Karl er einnig ríkjandi Íslandsmeistari í sínum flokki og sigurvegari bæði haust- og vormóts JSÍ . Helena er Íslandsmeistari í senior, junior og cadet flokkum. Hún náði einnig silfurverðlaunum í cadet flokki á NM og 7. sæti í cadet flokki á European Cup móti í Gyor í Ungverjalandi. Helena gat því miður ekki veitt verðlaununum viðtöku, en hún flutti til Serbíu sl. haust og stundar þar judoíþróttina af kappi. Jón Hlíðar Guðjónsson formaður JR tók við verðlaunum fyrir hennar hönd.
Á árinu sem er að líða voru allnokkrar dan gráðanir, sem er ánægjulegt eftir frekar rýra uppskeru í fyrra. Dan gráðanir frá síðustu uppskeruhátíð voru eftirfarandi:
1.dan
– Aðalsteinn Karl Björnsson 27.5.2023
– Daníel Leó Ólason 15.5.2023
– Daníela Rut Daníelsdóttir 3.7.2023
– Daron Karl Hancock 27.5.2023
– Hrafn Arnarsson 24.4.2023
– Ingólfur Rögnvaldsson 27.5.2023
– Romans Psenicnijs 27.5.2023
– Skarphéðinn Hjaltason 27.5.2023
– Úlfur Þór Böðvarsson 15.5.2023
2.dan
– Ari Sigfússon 11.3.2023
– Ásta Lovísa Arnórsdóttir 13.12.2023
– Þorgrímur Hallsteinsson 11.3.2023
4.dan
– Gunnar Jóhannesson 30.12.2022
– Þormóður Árni Jónsson 30.12.2022
5.dan
– Sævar Jóhann Sigursteinsson 28.1.2023 5.dan (afhent á 50 ára afmæli JSÍ í janúar 2023)
8.dan
– Bjarni Ásgeir Friðriksson 28.1.2023 (IJF/EJU gráðun, afhent á 50 ára JSÍ í janúar 2023)
Tilkynnt var um val á efnilegasta judofólki ársins. Efnilegasta judokonan að þessu sinni var Weronika Komendera (JR) og efnilegasti judomaðurinn Romans Psenicnijs (JR).
Dómarar tilnefndu að þessu sinni Gunnar Jóhannesson (UMFG) sem dómara ársins. Gunnar hefur verið mjög virkur á árinu og sýndi prýðisgóða frammistöðu í dómgæslu á NM sem haldið var í Drammen í Noregi.
Stjórn JSÍ ákvað einnig að veita tveimur einstaklingum gullmerki JSÍ að þessu sinni, en þeir eru: Þormóður Árni Jónsson (JR) og Gunnar Jóhannesson (UMFG).
Gunnar hefur verið viðloðandi judoíþróttina frá því áður en JSÍ var stofnað árið 1973, en hann fagnaði einmitt 60 ára afmæli sama dag og JSÍ varð 50 ára þann 28. janúar. Störf Gunnars fyrir bæði JSÍ og UMFG eru margvísleg. Gunnar kemur að mótaframkvæmd, dómgæslu og ýmsu öðru fyrir JSÍ og hefur um árabil verið máttarstólpi í judodeild UMFG sem þjálfari og formaður deildarinnar.
Þormóður hefur einnig stundað judo frá barnsaldri. Hann hefur náð að afreka það að keppa þrívegis fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum, í Beijing 2008, London 2012 og Ríó 2016. Hann hefur verið virkur fyrir hreyfinguna eftir að keppnisferli lauk og var hann framkvæmdastjóri JSÍ 2019-2023. Þormóður fagnaði 40 ára afmæli á árinu og því var vel við hæfi að sæma hann gullmerki á þessum tímamótum.
Að lokum áttu gestir gott spjall yfir kaffiveitingum.