Afmælismót JSÍ í yngri flokkum var haldið í húsakynnum Judofélags Reykjavíkur laugardaginn 3. febrúar 2024. Keppt var í aldursflokkum 11-12 ára (U13), 13-14 ára (U15) , 15-17 ára (U18) og 18-20 ára (U21). Alls voru 52 keppendur frá sex félögum.
Margar af glímum mótsins voru bráðskemmtilegar og mörg glæsileg köst litu dagsins ljós. Ánægjulegt var að sjá hversu vel mótið var sótt þrátt fyrir frekar óhagstæð veðurskilyrði. Úrslitin má sjá hér. Margt var eftir bókinni, en líkt og oft áður voru einnig úrslit sem komu á óvart.
Framkvæmd mótsins var í höndum JR. Bjarni Friðriksson sá um tölvumál og alla uppsetningu á mótaforriti. Mótsstjórn og tímavarsla var í höndum Ara Sigfússonar og Mikaels Ísakssonar, sem gat því miður ekki keppt vegna meiðsla.
Dómarar mótsins voru þeir Sævar Sigursteinsson, Yoshihiko Iura, Gunnar Jóhannesson, Breki Bernharðsson og Aðalsteinn Karl Björnsson sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið keppandi í U21, en líkt og Mikael hvíldi hann sig frá keppni vegna smávægilegra meiðsla. Sem fyrr var dómgæslan prýðileg og aðdáunarvert að sjá hversu góða leiðsögn reyndari dómararnir veittu nýliðanum sem var að dæma í fyrsta skipti á JSÍ móti.
JSÍ þakkar þátttakendum, þjálfurum, starfsmönnum mótsins og áhorfendum fyrir daginn. Vonandi verður þátttakan jafn góð eða betri á komandi mótum.