Frétt tekin af vefsíðu Judofélags Reykjavíkur.
Á 53. ársþingi Judosambands Íslands sem haldið var í dag var Gísli Egilson kosinn nýr formaður sambandsins en Jóhann Másson, sem gegnt hefur formennsku í tæp tólf ár samfleytt sagði af sér vegna veikinda sem hann hefur verið að kljást við og er að ná sér af. Á þinginu var Jóhann sæmdur gullmerki ÍSÍ og kosinn heiðursformaður JSÍ og er hann sá sjötti sem hlýtur þann heiður. Frá félagi sínu JR fékk hann áletraðan grip með þökkum fyrir vel unnin störf sem hafa verið ákaflega gefandi og skemmtileg þó þau hafi ekki alltaf verið dans á rósum. Um leið og við óskum nýjum formanni til hamingju með kjörið þá óskum við Jóhanni skjóts og góðs bata og vitum að hann mun vera Gísla og öðrum í stjórnarmönnum JSÍ til staðar ef á þarf að halda.