Frétt tekin af vef JR.

Íslandsmótið 2024 í sveitakeppni (liðakeppni klúbba) fór fram hjá Judofélagi Reykjavíkur föstudaginn 15. nóv. Mótið átti upphaflega að fara fram 16. nóv. í Laugardalshöllinni en sökum þátttökuleysis annara klúbba en JR var hún færð fram um einn dag og til JR. Sveitakeppni karla var fyrst haldin 1974 og var þetta í 48 skipti sem keppnin fór fram en mótið féll niður 1993, 2002 og 2020. Fyrst var keppt í Sveitakeppni kvenna 1999. Hér má sjá hvaða lið hafa sigrað í þessari keppni.

JR sem hefur tekið þátt í keppninni frá upphafi sendi níu sveitir til leiks, tvær karlasveitir í U18, U21 og senioraflokki karla og eina í U15 drengir. Einnig var JR með eina kvennasveit seniora og eina í U15 stúlkur. Því miður voru engir þátttakendur skráðir frá öðrum klúbbum í keppnina og er það líklega í þriðja skiptið (líka 2021 og 2022) í rúmlega fimmtíu ára sögu keppninnar sem það gerist er það umhugsunarefni hvernig á því stendur.

Þar sem enginn var mótherjinn gegn JR þá kepptu sveitir JR innbyrðis nema hjá drengjum U15 og stúlkunum þar var JR bara með eina sveit svo ekki var hægt að keppa innbyrðis. Til þess að keppnin yrði meira jöfn og spennandi var ekki raðað í A og B sveitir heldur drógu keppendur miða úr potti sem merktir voru sveit A eða B og röðuðust í sveitir samkvæmt því.

Á ársþingi 2023 var samþykkt að hvert félag mætti fá lánsmann hvort heldur innlendan eða erlendan til þess að auka líkurnar á því að ná lágmarksfjölda í sveit og gera mótið fjölmennara og sterkara en það dugði hvorki til nú né þá. Á mótinu 2023 voru aðeins tvö félög, JR og UMFS skráð til leiks.

JR notaði tækifærið núna og fékk lánsmenn frá JS í U21 árs aldursflokkinn og einnig í U18 en það voru þeir bræður Arnar Arnarsson (U18) og Böðvar Arnarsson (U21). Sveit JR-B í karlaflokki sigraði sveit JR-A með þremur vinningum gegn tveimur. Í U21 árs flokki sigraði JR-B sveit JR-A með þremur vinningum og 21 tæknistigi gegn tveimur vinningum og 20 tæknistigum og í U18 sigraði sveit JR-A sveit JR-B en báðar sveitir voru með tvo vinninga en sveit JR-A með 20 tæknistig gegn 11. Sem sagt viðureignirnar voru sumarhverjar jafnar og spennandi og engin leið að átta sig á hvaða sveit myndi bera sigur úr býtum. Dómarar voru þeir Björn Sigurðarson og Gunnar Jóhannesson og mótsstjórar þeir Ari Sigfússon og Þorgrímur Hallsteinsson sem allir leystu sitt verkefni vel af hendi og þökkum við þeim fyrir þeirra framlag.

Þetta var í tuttugusta og þriðja skipti sem JR sigrar í sveitakeppninni og ellefta árið í röð. Hér eru úrslitin, U18, U21Karlar og videoklippa og myndir frá mótinu.