Fv. Elfar, Árni, Ásþór, Alexander, Birgir, Arnar og Jón.
Fv. Elfar, Árni, Ásþór, Alexander, Birgir, Arnar og Jón.

Það var glæsileg uppskera hjá Íslensku keppendunum á Hilleröd Int. í dag en þeir voru alls sex og frammistaða þeirra var eftirfarandi. Alexander Heiðarsson keppti í -40kg undir 15 ára.  Þetta var fjölmennur flokkur, Alexander glímdi sex glímur og vann þær allar á ippon og gullið var því hans. Birgir Arngrímsson keppti í -66kg undir 15 ára.  Hann vann fyrstu þrjár glímurnar og var þá kominn í úrslit. Þar beið hann lægri hlut en silfrið var vel unnið. Arnar Þór Björnsson og Elfar Davíðsson kepptu báðir í -66kg undir 18 ára. Flokkurinn var fjölmennur og því var leiðin í undanúrslit löng en þangað komust þeir báðir. Arnar þurfti að vinna fjórar glímur og Elfar þrjár. Í undanúrslitum tapaði Elfar fyrir sínum andstæðingi og endaði því með bronsverðlaunin. Arnar vann sína glímu og var þá kominn í úrslit. Þá glímu vann hann og annað gull komið í hús til okkar. Árni Pétur Lund keppti í -73kg undir 18 ára. Hann vann fyrstu þrjár glímurnar á methraða og var þá kominn í úrslit. Þar mætti hann ofjarli sínum en silfrið var samt sætt. Ásþór Loki Rúnarsson keppti í -81kg undir 18 ára. Eins og Árni og Birgir vann hann fyrstu þrjár glímurnar sannfærandi og komst í úrslit en beið þar lægri hlut og fékk silfur. Uppskeran er því allir á pall eftir að hafa þurft að vinna fyrir því, tvö gull, þrjú silfur og eitt brons. Afar vel gert.