Það er mikið um að vera í júlí mánuði hjá okkur. Í Castelldefels á Spáni eru þeir Egill Blöndal og Ægir Valsson í EJU æfingabúðum frá 1. til 7 júlí en þessar æfingabúðir eru með þeim bestu sem haldnar eru í Evrópu og voru á meðal þátttakenda margir af bestu judomönnum heims. Á mánudaginn (3. júlí) fór Gísli Vilborgarson fyrir hópi keppenda á vegum ÍBR á Alþjóðaleika ungmenna (International Children´s games) í Kaunas í Litháen en ÍBR hefur með stuðningi frá Reykjavíkurborg sent keppendur á leikana frá 2001. Þau sem fóru voru Alexandra Lis, Karen Guðmundsdóttir, Kjartan Hreiðarsson og Hákon Garðarsson. Í dag 7. júlí halda svo þeir Árni Lund og Logi Haraldsson til Þýskalands þar sem þeir munu dvelja við æfingar í Munchen í einn mánuð. Þeir munu taka þátt í seniora móti, European Judo Cup í Saarbrücken þann 15. og 16. júlí og æfingabúðum þar á eftir ásamt þeim Gísla Vilborgarsyni, Agli Blöndal og Sveinbirni Iura. Þetta er mjög sterkt og fjölmennt mót og t.d. í 81 kg flokknum eru 55 keppendur skráðir til leiks. Þann 30. júlí mun Árni keppa á juniora móti í Berlín þar sem Logi verður hans aðstoðarmaður og báðir síðan taka þátt í æfingabúðum að móti loknu. Alexander Heiðarsson mun keppa á EYOF leikunum í Ungverjalandi dagana 24-30 júlí en með honum í för og til aðstoðar verður faðir hans Heiðar Jónsson.Þetta er gríðasterkt mót og taka allir bestu cadett keppendur Evrópu þátt í mótinu. Stór hópur fer í Gerlev æfingabúðirnar í Danmörku dagana 30. júlí til 5. ágúst en þangað fara eftirfarandi aðilar á vegum JSÍ, Oddur Kjartansson, Dofri Bragason, Hrafn Arnarsson, Halldór Bjarnason og Gísli Vilborgarson sem verður flokkstjóri ásamt Úlfi Böðvarssyni sem dvelur nú í Danmörku. Einnig munu taka þátt þau Alexandra Lis, Karen Guðmundsdóttir, Benóní Haraldsson, Matthías Stefánsson og Starkharður Snorri Baldursson. Að lokum þá verður heimsmeistaramót karla og kvenna haldið í Budapest dagana 28. ágúst til 3. sept. og hefur landsliðsþjálfarinn Jón Þór Þórarinsson valið þá Þormóð Jónsson +100 kg og Egil Blöndal -90 kg til þess að keppa þar. Það er þó hugsanlegt að keppendurnir verði eitthvað fleiri frá Íslandi en það kemur í ljós innan fárra daga.