Bikarkeppni karla 2010 Seinni hluti Bikarkeppni karla 2010 fór fram í gær (var frestað í nóv. ´10) og urðu JR- ingar Bikarmeistarar annað árið í röð eftir harða og spennandi keppni gegn Júdódeild Ármanns. Hvert lið teflir fram fimm mönnum í eftirfarandi þyngdarflokkum, -66, -73, -81, -90 og +90kg. Í léttasta flokknum -66 kg, gerðu þeir Höskuldur Einarsson (JR) og Axel Kristinsson (Ármanni) jafntefli, hvorugur náði að skora stig. Kristján Jónsson (JR) sigraði örugglega Tómas Tómasson (Ármanni) á ippon (10 stig) Í -81kg flokknum sigraði Sveinbjörn Iura (Ármanni) Jón Þór Þórarinsson á yuko (5 stig) þegar Jón fékk refsistig fyrir að fara út fyrir keppnisvöllinn en fram að því hafði glíman verið í járnum. Keppnin í -90kg flokknum milli þeirra Ægis Valssonar (JR) og Birgis Ómarssonar (Ármanni) endaði með jafntefli en Ægir hafði leitt viðureignina með yuko (5 stig) en Birgir náði að jafna þegar lítið var eftir af viðureigninni. Þegar hér er komið við sögu er staðan þannig að JR er með 1 vinning og 10 stig gegn 1 vinningi og 5 stigum Ármenninga og ein viðureign eftir í +90kg flokknum milli þeirra Þormóðs Jónssonar (JR) og Þorvaldar Blöndal (Ármanni).
Þetta var hrein úrslitaviðureign þar sem JR dugði jafntefli en Ármann varð að vinna til að sigra keppnina. Þeir félagar þekkjast vel því þeir hafa margoft glímt til úrslita í opnum flokkum og eftir spennandi og skemmtilega glímu var það Þormóður sem sigraði örugglega með fínu kasti og fékk fyrir það ippon (10 stig ) og þar með var sigurinn í höfn hjá JR sem vann með 2 vinningum og 20 tæknistigum gegn 1 vinningi 5 tæknistigum Ármenninga en 2 viðureignir enduðu með jafntefli. Það voru 5 lið sem tóku þátt í bikarkeppninni að þessu sinni og voru það eftirtalin lið auk JR og Ármanns. Júdódeild ÍR, Júdódeild Þróttar og Júdódeild KA sem varð í þriðja sæti.